27.11.2007 | 15:45
Hvaðan koma lögin? Heimspekihugleiðingar
Á þessari önn hef ég tekið kúrs sem ber rangheitið Almenn Lögfræði IV, hérna upp á Bifröst, en er í raun réttarheimspeki.
Þar erum við að læra um nokkrar kenningar um hvaðan lögin koma. Til hvers eru lög til, eða eru þau almennt til? Þurfum við lög? Eigum við yfirleitt að hafa lög eða eru lög gagnslaus? Eru lögin kannski bara stjórntæki fyrir yfirvöld til að halda borgurum i skefjum á meðan að þau ná sínum markmiðum fram.
Náttúruréttur er ein af þessum stefnum. Þar lærðum við meðal annars um mann sem heitir Tómas Af Aquino, hann sá ástæðu til að skrifa bók, Summa Theologia, um Guðfræði og lögin, hann náði að vísu ekki alveg að klára bókina en sú bók nam 60 bækur í Skírnisbroti er hún var endurútgefin í London 1966 (að vísu er sú útgáfa bæði á latnesku og ensku). En hann taldi að meðal annars væru til:
- Eilíf lög
- Eðlislög
- Mannalög
Hann vildi meina að eilífu lögin kæmu frá Guði, þau væru ekkert annað en sú tegund guðlegrar visku sem stýrir athöfnum og hreyfingum, eilífu lögin væru lög guðs þar sem að mannalögin nái einungis til skynsemi gæddra skepna sem lúta manninum.
Eðlilögin tilheyra allar hneigðir manna svo sem holdleg fýsn, samfarir karls og konu, menntun og afkvæmi ásamt reiði. Okkur væri eðlislægt að hafa samfarir til að eignast afkvæmi sem væri okkur svo eðlislægt að hugsa um þau, fæða, klæða og mennta.
Mannalög væru þau væru byggð á skynsemi og leidd af eðlislögunum. Ef lög væru ekki skynsöm og siðferðislega réttlát, þá væru það ólög. Þeim bæri ekki að taka mark á.
Eins var farið í vildarrétt, þar eru menn á öndverðu meiði varðandi náttúrurétt og vilja meina að siðferði hafi ekkert að gera með lögin. Lög séu bara lög, burt séð frá því hvort að þau séu siðferðislega réttlát eður ei. Borgurum beri að fara eftir lögunum, annars skuli þeim refsað. Ef þú fylgir ekki lagabókstafnum þá skuli bara refsa þér, skiptir engu máli hvort að lögin séu siðferðislega réttlát eður ei. Lög eru bara lög og ekkert kjaftæði meira með það.
Nú ok þá eru Marxistar eftir, ath ekki rugla þeim saman við kommúnisma.
Lögin í huga marxista eru ekkert annað en valdatæki stéttarkúgarana. Þau eru hálfgert ofbeldistæki sem ríkjandi stétt notar til að viðhalda sínum hlut. Þróunarkenningin skv. marxistum kenningunum er ekki þægileg því að hún segir að þróunin verði í ákveðnum stökkum með byltingum Öll vísindi væru dæmd til að detta úr leik, þar sem að það fyndist alltaf eitthvað betra. En Marx tengdi þetta við hagkerfið og vildi meina að framleiðsluöflin væru að þróast í gegnum hagkerfið en þjóðfélagsöflin, pólitík osfrv væri yfirborðið en hitt ynni á undirborðinu.
Lenin taldi ekki hægt að koma á kommúnisma einn tveir og þrír og lagði til að hafa sterkt flokksræðið og sterk ríkisvald, þar með víkur hann mikið frá kenningum Karl Marx. Það tókst ekki að afnema lögin því það þurfti að klára stéttarbaráttuna. Hin opinbera hugmyndafræði til 1937 var að nota þurfti lögin til að ná fram markmiðunum. Þannig að það reyndi meira á lögin sem tæki ríkisvaldsins og voru lögin réttlæt til að ljúka stéttarbaráttunni og síðan áttu þau að deyja út. En lög eru óþörf þar sem að allir eru jafnir.
Fleiri stefnur komu til en ég ætla að bíða með þær.
Spurning hvort að einhver af þessum stefnum er réttari en hin.
- Koma lögin frá Guði og skiptir siðferði þeirra máli? Svo segir Tómas af Aquino
- Eru lög bara lög óháð siðferði? Svo segia vildarréttarmenn s.s. Hart
- Eru lögin ekki bara valdatæki stéttarkúgara? Svo segir Karl Marx
- Eru lögin ekki bara óþörf ef allir eru jafnir? Lenín vildi meina það.
Svarið hver sem vill.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.