1.3.2008 | 13:07
Refsingar og lögregluaðgerðir
Síðdegis í gær leið mér eins og glæpamanni er ég ók einn í bíl mínum frá Bifröst og í bæinn fullum af dóti (ekki dópi). Ekki að ég hafði orðið uppvísum að neinum glæp eða gert neitt af mér. Enda er ég fremur einföld og saklaus sál. Hafði um það bil tveim mánuðum áður ákveðið að lokaflutningar í bæinn skyldi verða þann 29 febrúar.
En af hverju leið MÉR þá eins og glæpamanni? Jú sökum þess að yfirvöld höfðuð ákveðið að hefjast til innrásar á Bifröst deginum áður, en þá mættu fjölmennt lögreglulið frá Borgarbyggð, Dölum, fíkniefnalögreglunni í Reykjavik, tollgæslumenn og til að kórana þetta allt saman einnig sérsveit lögreglunnar ásamt hundum. Enda "væntanlega" stórhættulegt lið sem býr á Bifröst. Eftir að hafa hertekið Bifröst var ráðist inn í þrjár íbúðir með húsleitarheimildir. Í þessum þremur íbúðum fundust meint fíkniefni og þar með var "Stóra"dópmálið á Bifröst orðin raunin og komið í alla hélstu fréttamiðla landsins. En skv. fréttum munu efnin vega alls 0,5 grömm. Það gera að meðaltali í þessum þremur íbúðum 0,166 grömm. Nú er ég ekki eðlisfræðingur og þekki ekki heldur til eðlisþyngda þessara efna, né hef ég neina þekkingu alls á fíkniefnum, en einhvern veginn held ég að þessar aðgerðir hafi verið í hróplegu ósamræmi miðað við það magn fíkniefna sem fannst að lokum. En væntanlega hafa yfirvöld talið að um mun stærra mál væri að ræða. Ekki ætla ég að verja gjörðir þessara þriggja einstaklinga, er einungis málkunnugur einum þeirra og er algjörlega mótfallinn dópneyslu. En hinsvegar þykir mér refsing þeirra ná langt út fyrir mörk glæpsins. Það hafa verið birt nöfn og myndir af þessum einstaklingum á sumum netmiðlum, þeir voru ekki bara rekin af háskólasvæðinu heldur einnig líka úr skólanum. Þar með er námið þeirra ónýtt. Svo munu þau væntanlega fá einhverja sekt frá ríkinu fyrir vörslu efnanna.
Er virkilega þörf á að taka fólk af lífi fyrir glæp af þessari stærðargráðu? Heldur fólk að þessar aðgerðir muni hafa fyrirbyggjandi mátt? Ég held ekki, enda er löngu sannað að þyngri refsingar hafa ekki fælingarmátt. Ég hefði talið betra að reka þessa einstaklinga af háskólasvæðinu, áminna þá og gefa þeim þannig kost á að ljúka sínu námi. En það búa ekki allir innan svæðis sem stunda nám á Bifröst.
Þó svo að ég skilji ekki hvernig ungt og greint fólk dettur í hug að fara í sjálfseyðingarhvöt með því að dópa, þá er staðreyndin sú að Bifröst er ekkert öðruvísi en önnur þúsund manna samfélög hér á landi, þú finnur þar fólk sem á við ýmis vandamál að stríða, svo sem þunglyndi, áfengisvandamál og því miður fólk sem neytir fíkniefna. Ætli fólk sem er tekið fyrir vörslu fíkniefna í stúdentagörðum annarsstaðar á landinu sé tekið svona af lífi í fjölmiðlum? Einhvern veginn efast ég um það. Í raun þykir mér það mun athyglisverðari frétt hversu litlu svona stór og fjölmenn lögregluaðgerð skilaði. En reyndar er ekki gott að sjá árangur svona aðgerða fyrirfram.
Þetta mál, þessar aðgerðir ásamt linnulausum fréttaflutningi af því, en þess má geta að Stöð2 var með lið á staðnum í gærdag langt frameftir degi, truflandi kennslutíma og takandi myndir. Þetta þykir mér með ólíkindum að skólayfirvöld hafi leyft, hefur bara svert nafn skólans. Það þykir mér verst af öllu. Því að langflestir nemenda og starfsmenn þessa skóla eru sómafólk og frábærir einstaklingar. Finnst mér því ömurlegt hvernig þetta mál var blásið upp, því í raun var ekki um stórt mál að ræða. En þetta er bara mitt mat á þessu máli, vonandi munu þessir þrír einstaklingar fara i meðferð og taka á sínum málum. Því á endanum er þetta sorglegast fyrir þau og þeirra fjölskyldur. Óska ég þeim alls hins besta í framtíðinni og vonandi mun ég aldrei aftur þurfa að líða eins og glæpamanni er ég ek frá eða til Bifrastar.
Góðar stundir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Leifur
Datt inn á bloggið þitt og er þér hjartanlega sammála. Sko, samanlagt 0,5 grömm er reykjanlegt en 0,5 grömm deilt í þrennt er varla reykjanlegt sitt í hvoru lagi. Refsing þessara einstaklinga er langt út fyrir öll velsæmismörk en það er bara mín persónulega skoðun. Ég er á móti fíkniefnum en við erum öll mannleg og okkur getur öllum orðið á. Að áminna þessa aðila ásamt því að sekta þá samkvæmt refsilögum hefði að mínu mati verið meir en nóg. Að reka þá úr námi og rústa lífi þeirra og eyða hundruðum þúsundum af okkar skattapeningum í svoleiðis, er firra og fáránlegt. Ég hef sjálf lent í slæmum félagsskap sem unglingur vegna óstöðugs heimilislífs og þetta eru alltof harkaleg viðbrögð. Nú tek ég fram að ég hef ekki fylgst með þessu máli neitt sérstaklega en kommenta bara á það sem þú skrifaðir.
Linda (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.