11.5.2008 | 23:24
Esjan
Til eru fleiri leiðir upp á Esju, en hin sígilda leið upp Þverfellshornið. Fyrir helgi hafði starfsmannafélag KPMG ákveðið að fara um helgina í sína síðustu skipulögðu gönguæfingu fyrir Hvannadalshnjúkinn. Ákveðið var að fara á laugardeginum, þar sem að veðurspáin var hliðhollust fyrir þann dag, og skyldi ganga frá Móskarðshnúkum og meðfram allri Esjunni og koma niður nálægt Hvalfjarðargöngunum. Svo ég sótti Olgu snemma á laugardagsmorgninum. Er við höfðum ekið í smástund, þá var farið að spá í hvar hópurinn hafði ætlað að hittast, hún var alveg viss um að það hefði verið á N1 stöðinni í Mosó, er við komum þangað á síðustu stundu var enginn þar sem við þekktum, ekki sála. Eftir Olga hafði hringt eitt eða tvö símtöl komumst við að því að það átti að hittast hjá Húsasmiðjunni í Grafarholti, svo við brunuðum þangað, en á leiðinni sáum við bíla sem við könnuðumst við koma á móti okkur. En þar voru starfsmenn KPMG á ferð. Svo nú hófust aftur símhringingar og náðist samband við einn bílinn og var ákveðið að hitta hópinn hjá Olís í Mosó, svo aftur sneri ég við og brunaði á ný upp í Mosó, en núna á Olís. Þar var ákveðið hvernig skipulagið skyldi vera, en ákveðið var að einn bíll skyldi vera við Mógilsá, ef við skyldum ákveða að ljúka ferðinni þar, þar sem að veðurútlit var ekki of gott, en annar bíll skyldi vera þar sem að áætlað var að ferðinni skyldi ljúka. Ók allur hópurinn að Mógilsá og beið eftir þeim sem skutlaðist með bílinn alveg út á enda. Síðan var ákveðið að aka að upphafsreit, fóru þar tveir jeppar, Golfinn minn og einn Skódi. Ákveðið var að fara í gegnum iðnaðarhverfið sem tilheyrir Mosó (á milli Esjuna og mosó), því það væri styðsta og skásta leiðin að sögn farastjóra og þyrftum ekki að fara yfir neina á. Jæja við fórum þar í gegn og byrjuðum á að fara heim að einhverjum bæ, uppgvötuðum strax að við værum ekki á réttum stað og var ekið af stað aftur og tekin hin beygjan sem við tókum ekki. Komum þar að einni á, en létum okkur hafa það enda viss um að við værum á réttri leið. Alltaf gerðist vegurinn þó grýttari og illfærari, en Golfinn minn fór þetta þó allt og á endanum höfðum við ekið yfir fjórar ár, og þar sem dýpst var, hefði ekki mátt muna miklu. Allavega hefði ekki verið hægt að opna dyrnar á bílnum án þess að inn myndi flæða vatnið. En við enduðum á réttum stað og gangan gat hafist. Til hvers að kaupa jeppa þegar maður á Golf?
Við löbbuðum upp hlíðarnar og upp á Esjuna, það gekk nokkuð vel, að vísu sukkum við ansi oft djúpt on í moldaleðjuna þarna og fengum yfir okkur góða og mikla rigningarskúri. Er upp var komið var oft á tíðum gengið þar sem var snarbratt örðum meginn og þverhnípi á hinni hliðinni. Á meðan að aðrir töluðu um hvað það væri frábært útsýni þarna, þrátt fyrir veðrið, þá einbeitt ég mér að því að horfa beint niður, hélst á hælanna á manneskjunni fyrir framan mig. Ástæðan er ósköp einföld, ég er frekar lofthræddur maður, jæja allt í lagi ég skal alveg viðurkenna það, ég er mjög lofthræddur og stóð á tíma ekki á sama. Skylst að við höfum farið í rúmlega 800 metra hæð. Svo komum við að mig minnir að það heitir Laufskarð, en þar hefur Ferðafélag Íslands verið svo elskulegt að setja upp skyldi til að minna mann á að maður fari um hálendi á eigin ábyrgð!!!! En á þessum tíma var komið hávaða rok, Olga segist hafa tekist á loft, þarna eru bara klettar og þar var snjór og harðfenni og kominn slydda í þokkabót. Ég bað um að fá að vera samferða eða nálægt farastjóranum yfir þessa hindrum sem mér leist orðið ekkert á. Þarna í klettunum aðeins lengra er víst kaðall til að halda sér utan í á meðan að maður fetar sig í klettunum, lét hann mig vita af. Reyndar vissi ég að á einum tímapunkti kæmi að þessum kaðli í klettunum. En ok, við byrjuðum að færa okkur niður snjóskaflinn, hann fremstur svo ég, og aðrir 13 rétt fyrir aftan. Þá gerðist það, já þá heyrðist köll frá elsta manninum í ferðinni. Sagði okkur að hætta við hið snarasta. Þetta væri ekkert vit. Hann væri búinn að lesa einhverja bók eftir Ara Trausta sem segði að þarna ætti maður alls ekki að fara ef það væri snjór og ís, nema þá að hafa brodda sem við vorum ekki með. Svo nú þurfti ÉG lofthræddi maðurinn að gjöra svo vel að snúa við í snjónum. Ok þetta var kannski ekkert mjög langt, en alveg nógu langt miðað við aðstæður. Eftir nokkrar umræður, sem tóku allt of langan tíma, þá var ákveðið að snúa við, ég var satt að segja mjög fylgjandi að snúa við. Fórum ekki alveg sömu leið tilbaka, heldur fórum niður einhverja hlíðina, á leiðinni tókst okkur að setja af stað smá skriðu. Merkilegt hvað þarf lítið til að búa til skriðu, en þessi skriða hefur verið ca 2,5 til 3 metra á breitt, veit ekki hvað hún fór marga metra niður, en nokkra þó svo að hún hafi ekki farið alla leið. Neðarlega í hlíðinni í smáskjóli var ákveðið að borða nestið. Síðan var gengið að bílunum og ekin hin "lengri" leiðin tilbaka, viti menn, þar var engin óbrúuð á, sem þurfti að aka yfir, takk fyrir og bara nokkuð góður malarvegur. En ganga sjálf tók um það bil 4,5 tíma.
Þessi færsla er ekki í boði N1, Húsasmiðjunnar eða Olís, né KPMG.
Góðar stundir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þakka þér fyrir þennan pistil. Það eru mjög margar skemmtilegar gönguleiðir upp á Esju. Skemmtilegustu leiðirnar finnst mér að fara upp á Kerhólakamb en þá fer maður upp rétt við Esjuberg á Kjalarnesi. Það er líka skemmtileg leið að fara upp Gunnlaugsskarðið austarlega í Esjunni þar sem snjórinn sést lengst frá Reykjavík á hverju ári. Mæli með þeirri leið á sóbjörtu vorkvöldi því þá er yndislegt að vera koma upp í hvilftina fyrir ofan gljúfrin.
Jón Magnússon, 11.5.2008 kl. 23:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.