Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Mættur

Júni 2008 009

Jebb, hann Hannes Ragnar er mættur á klakann og mun vinna hér á landi í sumar. Hann var svo heppinn að fá vinnu austur í Vík í Mýrdal og verður þar hjá móðursystur sinni í góðu yfirlæti, en mun þó samt vonandi koma sem flestar helgar í bæinn.

En þessi mynd var tekinn er ég ók honum austur, þarna erum við í Hveragerði, en við ákváðum að hegða okkur eins og ferðalangar og skoðuðum nokkra staði í leiðinni. Kannski munu myndir frá ferðinni birtast annað slægið.

Góðar stundir.


Hundalíf

Júni 2008 007

Já það er eiginlega bara hundalíf að vera inni að skrifa mastersritgerð í svona góðu veðri. Veit að þessi er alveg sammála mér.


Bensín

Var að gera lauslega úttekt á því hvað ég hefði borgað mikið í eldsneyti á bílinn minn síðastliðinn mánuð. Eftir að hafa yfirfarið bæði debetkortið og Visareikninginn komst ég að því að ég hef eydd um það bil kr. 42.000- bara í bensín. Þá er allt annað viðhald eftir á bílnum. Reyndar er það ekki mikið. Geri ráð fyrir því samt, að næsta mánaðartímabil verði enn dýrara. Crying

En heyrði hinsvegar vitnað í einn dana sem rekur bensínstöðvar i Danmörku í fréttum í dag, en hann taldi að brátt myndi heimsmarkaðsverðið á olíu fara að falla, hann spáir því meira að segja að það muni falla um allt að helming sökum spákaupsmennsku sem hefur verið undanfarið. Mikið vona ég að maðurinn hafi rétt fyrir sér.


Feigur var hann Ófeigur.

Jæja þá er Ísbjarnarmáli númer tvö lokið. Þó svo að því hafi lokið á versta veg fyrir greyið björninn, verður ekki annað sagt en að minnsta kosti var reynt um tíma að halda lífi í hann. Þó svo að það megi gagnrýni þann kostnað þá er ég samt á því að hann hafi verið réttlætanlegur, enda um að ræða dýr í útrýmingarhættu.

Í sumum fjölmiðlum fékk þessi ísbjörn nafnið Ófeigur, það er nokkuð víst að það nafn reyndist öfugmæli, því fyrir utan að vera feigur, þá reyndist þetta vera birna, sem sé kvenkyns Ísbjörn ef svo má að orði komast. En Ófeigur er náttúrlega karlkyns nafn.

En á heimasiðunnu ljod.is rakst ég á þetta skemmtilega ljóð og komst að því að ég er ekki eins og Ísbjörn sem er fastur i Sahara eyðimörkinni.

 
lýðræði


Án trúarinnar,
væri ég eins og krókódíll
í níðþröngu fiskabúri.
Án skoðana,
væri ég eins og ísbjörn
fastur í sahara eyðimörkinni.
Án tjáninga,
væri ég eins og fugl
vængjalaus á tunglinu.



Rökkva
1989-

Trúfrelsi, tjáningarfrelsi, skoðanafrelsi. Íslenska 103
[ Setja bókamerki ]

 

 




Í lausu lofti

Júni 2008 003

Sumar byggingar þjóna ekki þeim tilgangi að hýsa fólk né hluti. Þessi glerbrú þjónar þeim eina tilgangi að koma bankastarfsmönnum yfir götuna án þess að fara út fyrir húsins dyr.


Keyptu fasteign, fáðu aðra fría!!!!

Bogof_flyer1

Mikið hefur verið talað um hrun Íslenska fasteignamarkaðarins undanfarið. Fasteignaverð hefur lækkað og eignir seljast hægar. Til að "bæta" ástandið datt Íslensku ríkisstjórninni í hug að breyta lögum um stimpilgjald þannig að þegar fólk kaupir sína fyrstu fasteign, þá verða lánin sem tekin eru stimpilfrjáls, en ekki kaupsamningurinn sjálfur. Þessi breyting tekur gildi 1. júlí í ár. Þannig sértu að fara að kaupa fasteign í fyrsta sinn, þá skaltu bíða fram til 1. júlí með að skrifa undir kaupsamninginn. Því lögin eru að sjálfsögðu ekki afturvirk.

Ég persónulega er fylgjandi því að leggja niður stimpilgjöld, en ég hefði viljað leggja þau niður á fasteignakaup almennt, bæði kaupsamninga og fjármögnun lánanna, óháð því hvort að fólk er að kaupa í fyrsta sinn, eða í tíunda sinn. Vissulega hefði það kostað ríkissjóð pening, en það myndi að sama skapi glæða fasteignamarkaðinn aðeins. Eitt af markmiðum núverandi ríkisstjórnar var einmitt að leggja niður þessi blessuðu stimpilgjöld, því get ég ekki skilið af hverju skrefið var ekki tekið til fulls strax, í stað þess að taka smá skref fyrst. Skref sem er óréttlátt og erfitt að fylgja eftir.

En þessa auglýsingu fékk ég senda frá einni vinkonu minni. Þarna er fasteignamarkaðurinn væntanlega mun hægari en á Íslandi, enda færðu tvær fasteignir á verði einnar. Spurning að bíða þangað til að markaðurinn á Íslandi bregður eins við og kaupa þá eina fasteign og fá tvær. Wink Ég læt mig dreyma áfram.

Góðar stundir


Hvað er að?

DSC00524

Hvað er að hjá manni sem dettur í hug að skrifa mastersritgerð að sumri til, vera inni í góða veðrinu að skrifa í stað þess að vera úti í göngum, ja eða bara úti að njóta góða veðursins. Svo er í þokkabót  EM í fótbolta.

Jæja best að fara að slökkva á sjónvarpinu og reyna að einbeita sér að ritgerðinni.

 Góðar stundir


Hvar áttu svo heima?

 

Í gegnum tíðina hefur það tíðkast að alþingismenn hafa átt lögheimili á hinum undarlegustu stöðum til þess að ná kjöri. Eitt slíkt dæmi er er þessi maður hér til hliðar, en hann er dýralæknir að mennt, en starfar í dag sem alþingismaður og einnig sem Fjármálaráðherra okkar Íslendinga. Hann er reyndar í stjórnmálaflokki sem ég myndi kjósa i dag, ef það yrði boðað til kosningar á morgun, en það er nú frekar ólíklegt að það verði. Þessi maður hefur unnið sér til frægðar að skipa Þorstein son Davíðs son Odds í stöðu héraðsdómara er vinur hans Björn Bjarnarson dæmdi sig réttilega vanhæfan til að skipa viðkomandi héraðsdómara.

En eins og áður hefur komið fram, þá flutti þessi maður lögheimili sitt fyrir síðustu kosningar, því að hann sá fram á að ná ekki kjöri í sínu umdæmi, en sá sér leik á borði og fór fram fyrir suðurlandið. Það er ekkert sem mælir á móti því að stjórnmálamenn séu klókir og flytji sig um set, telji þeir sig eiga meiri möguleika annarsstaðar. Í viðkomandi kjördæmi er annar maður með sama nafni sem hefur einnig náð yfirleitt góðu kjöri og var sá maður reyndar að koma aftur í framboð eftir að hafa afplánað stutta fangelsisdvöl. En í stuttu máli þá komust nafnarnir tveir að og þessi hér til hliðar varð aðeins hlutskarpari, kannski þess vegna sem hann er orðinn fjármálaráðherra, en hinn er einungis þingmaður. Hvað veit ég, er aðeins leikmaður í stjórnmálum. Þó að ég styðji flokk þeirra tveggja í dag, er ekki þar með sagt að ég styðji þá tvo, né allt sem flokkurinn geri.

En sá sem myndin  er af hér að ofan hefur verið mikið í fréttum að undanförnu og er sakaður um lögbrot í einum fjölmiðli landsins fyrir að búa annarsstaðar en þar sem að lögheimili hans er skráð. Til eru lög um lögheimili, nr. 21 frá árinu 1990. en þar segir í 1.gr. eftirfarandi:


1. gr. Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.
Maður telst hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.
Dvöl í gistihúsi, fangelsi, vinnuhæli, sjúkrahúsi, athvarfi, heimavistarskóla, verbúð, vinnubúðum eða öðru húsnæði, sem jafna má til þessa, er ekki ígildi fastrar búsetu. [Sama gildir um húsnæði í skipulagðri frístundabyggð [og á skipulögðu iðnaðar-, athafna- og hafnarsvæði og öðru svæði innan þéttbýlis sem skipulagt er fyrir atvinnustarfsemi nema búseta sé þar heimil samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum].1)]2)
[Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. má heimila tímabundna skráningu lögheimilis í starfsmannabústað.]1)

Samkvæmt þessu ber fólki að hafa sitt lögheimil þar sem það býr að jafnaði. Svokölluð fast búseta. En í 4.gr. segir svo eftirfarandi

4.gr. Enginn getur átt lögheimili hér á landi á fleiri en einum stað í senn

svo segir í 5 og 6.mgr.

  Alþingismanni er heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður en hann varð þingmaður. Sama gildir um ráðherra.
Verði eigi skorið úr um fasta búsetu manns skv. 2. og 3. mgr. skal maðurinn sjálfur ákveða hvar lögheimili hans skuli vera. Geri hann það ekki ákveður Þjóðskráin það.

Ok, hann flutti lögheimil sitt fyrir núverandi kjörtímabil, en var hann einhvern tímann með fasta búsetu á suðurlandi, það er svo önnur spurning. Hann þarf ekki að hafa haft hana lengi, en samt í nokkra daga. En eins og áður segir þá skil ég manninn vel að hafa flutt sig um kjördæmi, en ég skil hinsvegar ekki fólkið sem kaus hann í prófkjörinu. En það er svo margt sem ég skil ekki, svo það er ekkert að marka.

En við skulum átta okkur alveg á einu, að það finnast væntanlega stjórnmálamenn í öllum stjórnmálaflokkum sem hafa leikið sama leikinn og viðkomandi maður sem er hér til umræðu. En það afsakar samt sem áður ekki hans gjörðir né hinna.

Góðar stundir.


Ísbjarnarblús

Í morgunsárið uppgvötaðist að Ísbjörn hefði numið land norður í landi. Sást til hans í Þverárhlið. Þrátt fyrir að Ísbirnir hafi áður numið land hér á landi, þá virðist sem enginn hafi vitað hvernig ætti að bregðast við. Á endanum varð greyið björninn svo skotinn, enda þrátt fyrir að vera í útrýmingarhættu þá ku hann bara vera friðaður á sjó og ísjökum, en um leið og hann stígur á land, þá má drepa hann, en þetta kom víst fram einhversstaðar í einhverjum fjölmiðli.

En það er ýmislegt sem hefur þurft að vega og meta í morgunsárið hjá viðkomandi yfirvöldum, það er lögreglunni og umhverfisráðuneytinu. Til að mynda eftirfarandi:

  • Veldur dýrið hættu?
  • Á að drepa það?
  • Á að deyfa það?
  • Á að veiða það í gildru? Er slík gildra til? er hægt að útbúa slíka gildru í snarhastri?
  • Er hægt að geyma dýrið hér á landi á lífi?
  • Er hægt að senda dýrið tilbaka sökum sjúkdómahættu? (Dýr sem flutt eru til landsins þurfa að fara í sóttkví í ákveðinn tíma, hvernig ætli þessar reglur séu í Grænlandi?)

 Eftir að dýrið var felld hefur þurft eða þarf að spyrja sig eftirfarandi spurninga

  • Má nýta kjötið?
  • Hvað á að gera við hræið?
  • Hver ber kostnaðinn af því?
  • Hver á að fá að eiga það?

Satt að segja held ég að enginn hafi vitað hvað skyldi gera. Virðist sem ákvarðarnir hafi verið teknar í óðagoti og flýti. Fyrst tala menn um að ekkert deyfilyf hafi verið til í landinu, svo að þessi "eina"deyfibyssa á landinu hafi verið óvirk og staðsett á Egilsstöðum, en nú er komið í ljós að bæði sé byssan virk og eins að til sé deyfilyf í landinu. Menn benda á hættuna á að týna dýrinu sökum þoku. Ég horfði áðan á upptöku mbl-sjónvarpsins af því er dýrið var skotið, einhvern veginn get ég hvorki séð neina þoku þar eins og talað er um að hafi verið á svæðinu. Miðað við lýsingar í útvarpinu frá þeim sem verja dráp dýrsins þá var þar nánast þykk Lundúnaþoka, né get ég séð að dýrið hafi verið að ógna mönnum. Finnst frekar eins og það sé að hörfa. En auðvitað er auðveld að gagnrýna þá ákvörðun að skjóta dýrið héðan heima frá sér, langt frá atburðum dagsins. En samt finnst mér að menn hafi tekið þessa ákvörðun með ansi snöggum hætti og það er gagnrýnisvert. Líklegast er svo sem að dýrið hefði verið drepið á endanum, en samt dýr sem er í útrýmingarhættu, ber að reyna að vernda með öllum tiltækum ráðum að mínu áliti. En vonandi munum við íslendingar úr því sem komið er læra af gjörningum dagsins og útbúa einhverja aðgerðaráætlun ef og þegar svipað atvik gerist aftur.

Góðar stundir


Sunnudagssteikin

Grábrókarétt

Jebb, ég er á lífi, en kindurnar sem hafa farið í þessa rétt í gegnum tiðina eru seinnilegar ekki á lífi lengur. Þær hafa líklegast flestar endað á borðum landsmanna, hugsanlega ofnsteiktar með soðnar eða brúnaðar karftöflur ásamt brúnsósu.

Ekki verður neitt lambakjöt hjá mér í kvöld. Nei ég verð með kjúklingalæri.

Verði ykkur að góðu.

Góðar stundir


Höfundur

Leifur Runólfsson
Leifur Runólfsson
Hér mun höfundur blogga um sín hugarefni. Vert er þó að geta þess að hann mun forðast í lengstu lög að blogga um sín persónuleg málefni enda á slíkt ekki heima á bloggsíðum.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • pamela anderson
  • pamela anderson
  • island3
  • her
  • island1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband