Færsluflokkur: Bloggar
11.10.2009 | 20:38
Einu sinni var það töff að vera fæddur 1967.
Einu sinni gat maður sagt stoltur frá því, að maður væri fæddur á því herrans ári 1967. Árið sem Pamela Anderson, Kurt Cobain, Paul Gascoigne, og Björgólfur Thor Björgólfsson fæddust.
Allt þetta fólk náði ótrúlegum árangri í því sem það tók sér fyrir hendur. Voru sannkallaðir sigurvegarar. Maður gat verið mjög stoltur yfir því að hafa fæðst sama ár og þetta fólk, en það er ekki svo lengur. Því miður.
Pamela Anderson.
Bomban sem hljóp um á ströndinni í Baywatch-þáttunum í fögrum rauðum sundbol, hvað getur maður sagt, hún má muna fífil sinn fegri.
Kurt Cobain, fd. 20. febrúar 1967 látinn 5. apríl 1994.
Var sannarlega frábær tónlistarmaður í einu besta bandi sögunnar, það er Nirvana. Hann átti í basli með eiturlyf og lést 1994 er hann framdi sjálfsmorð að sögn yfirvalda, en margir telja að hann hafi hreinlega verið myrtur.
Paul Gascoigne
Gazza var frábær fótboltamaður, en átti í miklum vandræðum utan vallarins. Er þekktari í dag fyrir drykkjuskap og fyrir að hafa barið fyrrum eiginkonu sína.
Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor útrásarvíkingur með meiru. Eignaðist hlut í bjórverksmiðju í Skt. Pétursborg og seldi með miklum hagnaði, síðan þá hefur hann verið í miklum fjárfestingum og er talinn ríkasti maður Íslands. Undanfarið hefur hann þó fengið MIKLA gagnrýni vegna bankahrunsins, enda var hann einn aðaleigandi Landsbankans áður en að ríkið tók bankann yfir og ber sem stór eigandi að bankanum væntanlega sína ábyrgð á IceSave málinu.
Já ég hugsa bara að ég segi engum frá því að ég sé fæddur á því herrans ári 1967.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2009 | 20:26
Spurning
Drengurinn komst loks inn á síðuna sína að nýju. Gleymdi lykilorðinu. Kemst ekki lengur inn á facebook síðuna. veit ekki hvað er vandamálið þar, því ég man lykilorðið á þeirri síðu. Spurning hvort að maður eigi að fara að blogga aftur og þá í hvaða mynd? Á maður að hafa þetta lögfræðilegt blogg? Breyta þessu í myndasíðu, svipað og hjá Ragga Vals vini mínum, verst að ég á ekki nógu góða myndavél. Er nokkur maður skoðar þessa síðu lengur?
Ætla að leggjast undir felld og spá í hvað ég geri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2008 | 23:13
Vegirnir fyrir vestan
Mér hefur ávallt þótt mikið til vestfjarðarkjálkans koma. Sjálfur var ég í sveit sem krakki á sunnanverðum vestfjörðum og svo hef ég tvívegis íhugað það alvarlega að flytja vestur á Ísafjörð. Hef oft komið til Ísafjarðar, á þar marga góða kunningja og þyki mikið til bæjarins koma.
Er ég var á leið heim úr vinnunni í dag, var verið að ræða í útvarpinu vegagerð á vestfjörðum. Sagt var frá því að nú yrði vegaframkvæmdum frestað sökum kreppunnar. Mér varð hugsað til þess að vegaframkvæmdum fyrir vestan var frestað í góðærinu einnig, þá sökum mikillar þenslu í þjóðfélaginu. Þannig má væntanlega segja að vegirnir fyrir vestan séu bæði fórnarlömb ofþenslu og fórnarlömb kreppunnar.
Svona til gamans ætla ég að láta fylgja hér með eina sanna sögu, frá því að ég var sölustjóri stórmarkssviðs hjá stórri verslunarkeðju hér á landi. Við fórum mjög reglulega um landið og seldum vörurnar okkar eins og gengur og gerist. Varðandi vestfirðina þá var yfirleitt látið duga að fljúga á Ísafjörð. Eitt vorið sendi ég þó tvær sölukonur akandi um vestfirðina, þær tóku ferjuna Baldur og þrættu vestfirðina. Er þær komu tilbaka sögðu þær við mig eitthvað á þessa leið, reyndar í gríni; Leifur, þú getur gleymt því að senda okkur aftur keyrandi vestur, í fyrsta lagi ef við vorum óléttar er við lögðum af stað þá erum við það ekki lengur, því vegirnir eru svo holóttir að fóstrið myndi ekki þola hristinginn. Í öðru lagi er maður var að mæta bílum þá blasti annaðhvort sjórinn við manni eða fjallshlíðin og vegirnir eru mjög mjóir og í þriðja lagi þá búa aðallega útlendingar fyrir vestan." Ég hótaði því reyndar að senda þær á 9 mánaða fresti svo þær yrðu ekki óléttar. Ferðin gekk reyndar vel hjá þeim og önnur þeirra er allavega búinn að eignast börn síðan. Hvort hún hefur farið aftur vestur veit ég ekki. Enda eru fjöldamörg ár síðan að ég hætti hjá þessu annars góða fyrirtæki.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2008 | 22:01
Ekki brjóta á börnunum!!!
Því miður eru all mörg dæmi um það, að skilnaðarbörn sjái einungis annað foreldri sitt þrátt fyrir fyrirmæli barnalaga um að börnin eigi rétt á að umgangast og þekkja báða foreldra sinna, svo lengi sem það fer ekki gegn hagsmunum og þörfum barnsins að mati dómstóla eða lögmælts stjórnvalds. Ástæður þess að barn/börn sjái einungis annað foreldrið geta verið mýmörg og ætla ég ekki að nefna þau öll hér í þessari stuttu grein. Ein af sorglegri ástæðum er þó sú, að annað hvort foreldrið ákveður að hefna sín á hinu foreldrinu og neita því um umgengni við barnið/börnin um hátíðarnar. Þannig telur foreldrið að það sé að brjóta á hinum aðilanum, en í raun og veru, þá er það einungis að brjóta á þeim sem því þykir vænst um, það er barninu/börnunum sínu(m), en ekki á hinu foreldrinu. Flest öll börn þykja vænt um báða foreldra sína og líta upp til þeirra beggja. Enda erum við foreldrarnir fyrirmynd þeirra. Það er nauðsynlegt að tala aldrei illa um hitt foreldrið í nærveru barns, alveg sama hversu illa hitt foreldrið hefur komið fram. Þetta virðist því miður all oft gleymast í skilnaðarmálum. Leyfum börnunum að njóta hátíðanna og samveru við báða foreldranna. Það er réttur barnanna, ekki brjóta á þínu eigin barni.
Góðar stundirBloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2008 | 22:13
Vöruskortur
Ljósaperan inni á baði sprakk hjá mér, svo ég ákvað að skreppa út í verslun 10-11 og kaupa ljósaperu. Þar gat ég valið á milli þess að fá rauða, bláa eða gula ljósaperu. En þeir áttu ekki til glæra ljósaperu og afgreiðslumaðurinn sem var á vakt, sagðist vera búinn að bíða í ca mánuð eftir glærum perum. Þar sem að ég þjáist af valkvíða ákvað ég að bíða til morguns með að velja hvaða lit af peru ég ætla að hafa inni á baði. Þangað til verður annað hvort bara myrkur þar inni eða ég mun notast við kertaljós.
Allar tillögur velkomnar.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.11.2008 | 23:32
Obama McCain
Jæja þá er landið þar sem ég fæddist í fyrir allmörgum árum og landið sem faðir minn býr í, ásamt mörgum öðrum úr föðurfjölskyldunni að kjósa sér forseta. Er ég vakna í fyrramálið þá ætti að vera ljóst hvort að Barack Obama verði kjörin forseti eða John McCain. Reyndar tel ég að það sé frekar öruggt að Obama vinni þetta.
Það er í raun ótrúlega merkilegt að maður sem á hvíta móður og svartan föður frá Kenýa, skuli verða næsti forseti Bandaríkjanna, þar að auki á hann fullt af hálfsystkinum í Kenýa (sem geta ekki kosið hann). Ólst upp um tíma á Indlandi og á hálfssystur sem á Indverskan föður. Svo eftir að hann flutti frá Indlandi, bjó hann um tíma hjá Ömmu sinni og afa á Hawaii. Þangað til að móður hans flutti aftur til Hawaii frá Indlands. Það sem er svo ótrúlegt við þetta er að bandaríkjamenn eru mjög íhaldssamir og margir hafa lítið álit á blökkumönnum, hvað þá kynblendingum og ekki bætir úr skák að hann skuli vera skilnaðarbarn. Því fjölskyldan hefur hingað til skipt miklu máli í bandaríkjunum. Obama er í raun að framkvæma það sem flestir hafa talið ómögulegt. Að brjótast til metorða against all odds. Ég tel næsta öruggt að hann verði kosinn í nótt, veit allavega ef ég ætti að velja á milli McCain og Obama, þá er engin spurning um að ég myndi kjósa Obama Barack.
Góðar stundir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2008 | 18:32
Fjöldi þingmanna, er hann raunhæfur?
Tölfræði getur verið bæði skemmtileg og fróðleg. Ég ákvað í gamni að taka saman smá tölfræði um fjölda þingmanna á noðurlöndunum versus fólksfjölda viðkomandi lands. Fólksfjöldatölurnar eru fengnar af heimasíðu hagstofu viðkomandi lands og miðast við 1 janúar 2008. Fjöldi þingmanna eru teknir af vef viðkomandi alþingis, hverju þingið nefnist í viðkomandi landi, (stortinget, folkstinget, riksdagen og eduskunta).
Ísland | |
Fólksfjöldi 1 janúar 2008 | 313.376 |
Fjöldi þingmanna | 63 |
Fjöldi íbúa á hvern þingmann | 4.974 |
Sviþjóð | |
Fólksfjöldi 1 janúar 2008 | 9.187.234 |
Fjöldi þingmanna | 349 |
Fjöldi íbúa á hvern þingmann | 26.324 |
Finnland | |
Fólksfjöldi 1 janúar 2008 | 5.300.484 |
Fjöldi þingmanna | 200 |
Fjöldi íbúa á hvern þingmann | 26.502 |
Noregur | |
Fólksfjöldi 1 janúar 2008 | 4.737.200 |
Fjöldi þingmanna | 169 |
Fjöldi íbúa á hvern þingmann | 28.031 |
Danmörk | |
Fólksfjöldi 1 janúar 2008 | 5.475.791 |
Fjöldi þingmanna | 179 |
Fjöldi íbúa á hvern þingmann | 30.591 |
Á þessum töflum sést að það eru langflestir þingmenn per íbúa hér á landi. Þó svo að það sé kannski ekki hægt að ætlast til að það séu jafnmargir íbúar á bak við hvern þingmann hér á landi, þá held ég samt að það mætti fækka þeim töluvert, laga þessa tölfræði og draga þannig úr útgjöldum fyrir íslenska ríkið. Ekki veitir af í þessari kreppu. Ég tek undir skoðanir þeirra sem telja að það megi fækka þingmönnum niður í ca 30 - 33 þingmenn. Að mínu áliti ætti einnig að gera Ísland að einu kjördæmi þannig að þingmenn myndu frekar hugsa um heildina í stað þess að vera að stunda kjördæmapot með tilheyrandi kostnaði fyrir allt þjóðfélagið. Víst við erum farinn að tala um kostnað, þá er spurning með eftirlaunafrumvarpið og þessa aðstoðarmenn landsbyggðaþingmanna.
Góðar stundir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2008 | 16:30
Sagan af eyjunni í norðri
Fyrir rúmlega 1.000 árum fóru nokkrir ungir Norsarar í útrás. Þeir höfðu fengið nóg af skattálagi síns konungs. En á þeim tíma voru skattar mjög háir í Noregi. Menn áttu fyrir vikið erfitt með að ná endum saman og lífa sómasamlegu lífi. Þessir menn ákváðu að taka eitthvert til sinna ráða og einn af þeim hét Ingólfur Arnarson og ákvað hann að sigla út á úthafið og sjá hvert hann myndi lenda.
Eftir að hafa siglt í einhvern tíma, kom hann og hans hópur að landi sem fékk nafnið Ísland. En landið hafði verið ísi þakið er fyrsti maðurinn kom til landsins. Eftir smá siglingu ákváðu þessir menn að setjast að á suðvesturhorni landsins. Brátt fylgdi fleira fólk í kjölfarið.
Ástæðan fyrir því að menn fluttu til Íslands var að það var nægt landrými, landið vaxi skógi, engir óvinveittir frumbyggjar og fjandsamlegir komumenn, svo sem ránsmenn, sem áttu þangað lítið erindi, enda betra að ræna í kaupstöðum og þorpum þar sem var bæði fleira og ríkara fólk.
Sá fólk fram á bjarta tíma langt í burtu frá Noregskonungi og skattheimtumönnum hans. Á Íslandi skyldi ríkja mikið frelsi og litlir skattar. En hér skyldu einungis úrvalsmenn fá að búa. Menn sem voru óalandi og óferjandi voru dæmdir til skóggangssektar, sem þýddi að menn voru gerðir útlægir og réttdræpir.
Framan af gekk allt vel. Menn lifðu í friði og ró. Að vísu gekk fljótt á skóginn og hann óx hægt. svo að hann eyddist nánast allur upp á endanum. Norðmenn gleymdu ekki þessum mönnun í vestri og talsverð samskipti var á milli þeirra sem bjuggu á Íslandi og í Noregi. Menn sóttu til dæmis fyrstu lögin á Íslandi til Noregs, en brátt varð Íslandi hluti af Noregi og svo síðar hluti af Danaveldi. Lifði fólk hér um tíma við mikla eymd eftir bæði ýmsar hamfarir og einokunarverslun dana. En Íslendingar risu að endingu upp á afturfæturna og mótmæltu allir sem einn og kröfðust sjálfstæðis, eftir að Danir hættu að nenna að hlusta á okkur, meðal annars sökum þess að þeir voru hersetnir, ákváðu þeir að verða við því og veittu íslendingum sitt langþráða sjálfstæði á nýjan leik.
Síðan kom ameríski herinn til landsins með honum fylgdi ekki bara dátar og ný húskynni í formi bragga, heldur einnig gjaldeyrir. Allt i einu fóru íslendingar að eiga peninga. Gátu keypt lúxusvörur, sjónvarp kom til landsins að ógleymdu kanaútvarpinu. Lífið fór að leika við hvern mann, en svo voru sumir sem ákváðu að fara í heilsubótargöngu einu sinni á ári og gengu þá frá Reykjavík til Keflavíkur og kölluðu Ísland úr nató og herinn burt. Að endingu náðu þessir göngugarpar sínu fram og herinn fór og gjaldeyririnn sem kom með þeim hætti að koma. Menn áttuðu sig ekki á þessu. Enda viðskiptamenn komnir í svokallaða útrás og keyptu allt sem hægt var að kaupa, þá sérstaklega í Danmörku og Bretlandi. Flugu um á einkaþotum. Síðan voru þeir einnig mjög duglegir við að kaupa í sínum eigin fyrirtækjum, það var talið gott að geta seld sjálfan sig sjálfum sér, þannig jukust verðmætra margra fyrirtækja.
Íslensku viðskiptamennirnir fjármögnuðu kaupin sín með því að lána alþýðufólkinu á okurvöxtum, ásamt því að lánin voru verðtryggð, enda voru þeir búnir að eignast bankanna, settu á stofn útibú erlendis til að fá fleiri innlegg og tóku einnig erlend lán til að fjármagna útrás sína, sem eftir var tekið um allan heim. Þvílík snilld. En allt í einu vaknaði einn af þeim sem hafði verið að lána íslensku bönkunum upp af værum draumi og komst að því að hann hafði engin veð og þeir áttu ekkert. Skapaðist þá mikið óveður á fjármálamörkuðum og þá sérstaklega á fjármálamörkuðum á Íslandi, þar sem að eftirlit hafði verið nánast ekki neitt. Geysir þar í dag mikið óveður sem enginn vill koma nálægt og nú sjá flestir íslendingar aðeins eina lausn, það er að gefa eftir sjálfstæði landsins og ganga inn í Evrópubandalagið. Hvað skyldi Ingólfur gamli hugsa í dag í gröfinni sinni, skyldi hann leiða hugann af öllum þeim stórveldum sem hafa komið og farið og hugsað með sér, nei nei nei, ekki sleppa frelsinu, eða skyldi hann bara yppa öxlum og hugsa, tímarnir eru breyttir.
Það sem ég held, er að frelsið sé best, í útrás ber að fara, en það þarf að gæta hófs í henni og fara varlega og að lokum er nauðsynlegt að hafa gott eftirlit, en ég tel að eftirlitið hafi brugðist fyrst og fremst.
En hvað veit ég, það eina sem ég veit er að þetta er orðin allt of löng bloggfærsla.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.10.2008 | 18:26
Djöfulinn býr á Cayman Islands
Vorið 2007 skrapp ég til Cayman Islands. En eins og fólk kannski veit þá er Cayman Islands þekkt fyrir bankastarfsemi og bankaleynd. Þangað fara margir efnaðir aðilar og stofna bankareikninga. Einu útrásar Íslendinganna sem ég sá á Cayman Islands, voru þeir sem voru á ferðalagi með mér. Enginn af okkur taldi þörf á að stofna bankareikning svo ég viti af, en ég ætla samt ekki að ábyrgjast það. En við komumst að því að helvíti er á Cayman Islands og að djöfulinn býr þar. Skrapp sjálfur þangað og sendi börnunum mínum póstkort "from hell." Í raun var þetta eitt ómerkilegasta túrista-attraction sem ég hef á ævi minni séð. En um var að ræða pósthúsið Hell og svo svart hraun, þar sem var einn lítil devil. Kannski að hann stækki ef fleiri auðmenn koma þangað, ekki veit ég. En miðað við allt svarta hraunið hér á Íslandi þá ætti að vera hægt að búa til merkilegra helvíti. Annars höfum hell bara áfram á Cayman Islands og horfum björtum augum til framtíðar.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2008 | 20:52
Húsið hans Afa
Er ég flutti til Íslands í nóvember 1973 bjó föður afi minn og seinni kona hans, í litlu en skemmtilegu húsi. Á þessum árum fannst mér húsið aldrei vera lítið, enda tók amma ávallt vel á móti okkur. Fengum yfirleitt hjá henni litla kók og kex. Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég áttaði mig á því hvað húsið var í raun lítið og tók eftir því að allt innbúið miðaðist við stærðina á húsinu.
Í minni álmunni var forstofa og bókaherbergið hans afa. En hann var prentari og rithöfundur. Hafði mjög gaman af bókum og í þessu litla herbergi voru bókahillur allan hringinn og reyndar var það svo að það var hilla framan við hillu til að koma öllum bókunum fyrir. Þannig að ef þú tókst eina bók úr hillunni þá sástu bókina sem var fyrir aftan hana osfrv.
Í stærri álmunni var svo eldhús og stofa.
Þegar maður hugsar til þessa húsnæðis þá þykir maður eitt ótrúlegt og er ég hræddur um að nútíma fólk myndi ekki sætta sig við. En allan þann tíma sem þau hjónakornin bjuggu í þessu húsi, þá þurftu þau annað hvort að fara í bað/sturtu hjá nágrönnunum eða þá fara í laugarnar. Sæji mig í anda fara til nágrannans og biðja um að fá að fara í bað! Því það var hvorki baðkar né sturta í húsinu. Samt bjuggu í þessu húsi um tíma fjögur manns, það er afi og amma, dóttur þeirra og svo dóttursonur. Öll sváfu þau á efri hæðinni og ekki var hátt þar til lofts og stiginn upp var mjög brattur. En öllum leið vel.
Ekki vissi ég hversu merkilegt þetta hús var fyrr en þau fluttu út. Í mínum huga var þetta hús einungis merkilegt af því að afi og amma bjuggu þar. En samkvæmt þessu skilti sem nú er fest á einn vegg hússins þá var húsið reist árið 1872 og er eitt örfáa steinbæja frá þeim tíma sem enn stendur uppi. Áður var þarna torfbær og var jörðin ein af hjálegum gamla Reykjavíkurbæjarins.
Þetta merkilega hús heitir víst Stöðlakot og stendur við Bókhlöðustíg 6 í Reykjavík. Í dag lítur húsið mun betur út en síðustu árin sem afi og amma bjuggu þar, enda allt verið tekið í gegn. Um tíma var þarna gallerí. En í mínum huga er þetta afahús.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar