Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
28.10.2008 | 18:26
Djöfulinn býr á Cayman Islands
Vorið 2007 skrapp ég til Cayman Islands. En eins og fólk kannski veit þá er Cayman Islands þekkt fyrir bankastarfsemi og bankaleynd. Þangað fara margir efnaðir aðilar og stofna bankareikninga. Einu útrásar Íslendinganna sem ég sá á Cayman Islands, voru þeir sem voru á ferðalagi með mér. Enginn af okkur taldi þörf á að stofna bankareikning svo ég viti af, en ég ætla samt ekki að ábyrgjast það. En við komumst að því að helvíti er á Cayman Islands og að djöfulinn býr þar. Skrapp sjálfur þangað og sendi börnunum mínum póstkort "from hell." Í raun var þetta eitt ómerkilegasta túrista-attraction sem ég hef á ævi minni séð. En um var að ræða pósthúsið Hell og svo svart hraun, þar sem var einn lítil devil. Kannski að hann stækki ef fleiri auðmenn koma þangað, ekki veit ég. En miðað við allt svarta hraunið hér á Íslandi þá ætti að vera hægt að búa til merkilegra helvíti. Annars höfum hell bara áfram á Cayman Islands og horfum björtum augum til framtíðar.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2008 | 20:52
Húsið hans Afa
Er ég flutti til Íslands í nóvember 1973 bjó föður afi minn og seinni kona hans, í litlu en skemmtilegu húsi. Á þessum árum fannst mér húsið aldrei vera lítið, enda tók amma ávallt vel á móti okkur. Fengum yfirleitt hjá henni litla kók og kex. Það var ekki fyrr en löngu seinna að ég áttaði mig á því hvað húsið var í raun lítið og tók eftir því að allt innbúið miðaðist við stærðina á húsinu.
Í minni álmunni var forstofa og bókaherbergið hans afa. En hann var prentari og rithöfundur. Hafði mjög gaman af bókum og í þessu litla herbergi voru bókahillur allan hringinn og reyndar var það svo að það var hilla framan við hillu til að koma öllum bókunum fyrir. Þannig að ef þú tókst eina bók úr hillunni þá sástu bókina sem var fyrir aftan hana osfrv.
Í stærri álmunni var svo eldhús og stofa.
Þegar maður hugsar til þessa húsnæðis þá þykir maður eitt ótrúlegt og er ég hræddur um að nútíma fólk myndi ekki sætta sig við. En allan þann tíma sem þau hjónakornin bjuggu í þessu húsi, þá þurftu þau annað hvort að fara í bað/sturtu hjá nágrönnunum eða þá fara í laugarnar. Sæji mig í anda fara til nágrannans og biðja um að fá að fara í bað! Því það var hvorki baðkar né sturta í húsinu. Samt bjuggu í þessu húsi um tíma fjögur manns, það er afi og amma, dóttur þeirra og svo dóttursonur. Öll sváfu þau á efri hæðinni og ekki var hátt þar til lofts og stiginn upp var mjög brattur. En öllum leið vel.
Ekki vissi ég hversu merkilegt þetta hús var fyrr en þau fluttu út. Í mínum huga var þetta hús einungis merkilegt af því að afi og amma bjuggu þar. En samkvæmt þessu skilti sem nú er fest á einn vegg hússins þá var húsið reist árið 1872 og er eitt örfáa steinbæja frá þeim tíma sem enn stendur uppi. Áður var þarna torfbær og var jörðin ein af hjálegum gamla Reykjavíkurbæjarins.
Þetta merkilega hús heitir víst Stöðlakot og stendur við Bókhlöðustíg 6 í Reykjavík. Í dag lítur húsið mun betur út en síðustu árin sem afi og amma bjuggu þar, enda allt verið tekið í gegn. Um tíma var þarna gallerí. En í mínum huga er þetta afahús.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2008 | 21:59
Rústir og strönd
Í kulda og kreppu á Íslandi hugsar maður til betri tíma og hlýrri landa. Þessi mynd var tekin í Mexico vorið 2007. Ég átti dagstund í Mexico, skoðaði Maya rústir í cancun og sá svo þar þessa fínu strönd.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2008 | 13:59
Börnin okkar
Miðvikudaginn 18 apríl 2007 varð stórbruni í miðbæ Reykjavíkur. Þáverandi Borgarstjóri, Vilhjálmur hljóp út af skrifstofunni sinni, fékk bæði hjálm og jakka frá slökkviliðinu og fylgdist vel með öllu saman. Fór í viðtal í beinni og tjáði borgarbúum og öðrum landsmönnum að hér yrði strax byggt upp að nýju um leið og logar yrðu slökktir. Götumyndin yrði látin halda sér og byggðar byggingar í sama anda og þær sem brunnu. Ekki voru allir sáttir við að það skyldu byggja eins byggingar og fyrir var. En allir vildu samt sjá til þess að uppbyggingin hæfist eins fljótt og hægt væri.
Til að verja því að fólk færi sér að voða við brunarústirnar var byggð girðing í formi veggjar umhverfis rústirnar til að halda forvitnu fólki frá. Fljótlega fékk einhver þá snilldarhugmynd að taka myndir af börnunum okkar, börnum sem búa á Íslandi og munu erfa Ísland. Voru þessar myndir settar á girðinguna sem hylur brunarústirnar.
Ef fer sem horfir þá munu þessi börn ekki erfa neitt nema brunarústir í miðbænum, bankakerfi sem er hrunið og skuldir erlendis eftir hina miklu útrás okkar íslendinga sem fór frekar ílla að endingu.
Við skulum vona og trúa því að betur fari, þó svo að það líti ekki vel út í dag. Nú verðum við bara að bretta upp ermar og fara í uppbyggingu og ágætt væri að byrja á því kannski að byggja upp miðbæinn.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.10.2008 | 09:57
Leikið sér út á Gróttu.
Tók þessa mynd fyrir mörgum árum síðan af dóttur minni, þar sem að hún var að leika sér út á Gróttu. En þarna hékk fiskur til þerris í gamla daga. Kannski að hann geri það enn við og við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2008 | 20:06
Á vegi mínum varð...
...risa stór mjöltankur, er ég skrapp til Grindavíkur í dag.
Meira að segja sendibílinn sem ekur þarna framhjá sýnist pínulítill við hlið tanksins.
Já hann er stór tankurinn, enda sagður vera 12 metra á hæð (eða ummál) og 27 metra á lengd (eða hæð þegar hann er uppréttur).
Tankurinn tekur aðeins í, enda ku hann vera ein 90 tonn að þyngd. Ekki á hverjum degi sem svo þungir hlutir eru á ferð um götur landsins.
Vagninn sem notaður var við flutninginn er víst 60 hjóla þó svo að ég hafi ekki talið hjólin sjálfur persónulega.
Þarna hafa menn ákveðið að taka sér hvíld yfir daginn og spurning hvort að þeir haldi áfram akstrinum í kvöld eða um helgina.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2008 | 00:03
Gluosniu g
Rakst á þessa fasteign í Litháen hér um árið. Þess skal getið að ég fjárfesti ekki í henni né neinni annarri fasteign þar. En þessi eign er kannski dæmigerð fyrir kommúnismann, því lítið viðhald hefur verið á fasteigninni og hún gerð eins ódýr og möguleiki var á. En þess ber að geta að það voru margar fallegar fasteignir líka í Litháen, fasteignir sem ég hefði alveg getað hugsað mér að eiga. En við skulum vona að kreppan á Íslandi verði ekki svo mikil að ljósastaurar munu ryðga nánast i sundur og hús fara í algjöra niðurníðslu. Að vísu eru ýmis hús í miðbæ Reykjavíkur sem mætti taka í gegn. En nóg um það að sinni.
Góðar stundir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar