16.11.2007 | 13:49
Eru lestarsamgöngur lausnin?
Á undanförnum árum hefur verið mikið skrafað um hvort að það eigi að vera flugvöllur í vatnsmýrinni í Reykjavík. Hingað til hef ég verið fylgjandi flugvellinum, en hinsvegar þykir mér kominn tími á að við íslendingar förum að skoða alvarlega hvort að við ættum að taka upp lestarsamgöngur. Í Svíaríki er núna flugfélagið SAS að segja upp 230 manns á meðan að SJ-Tåget er að ráða til sín 1.000- manns. SJ spáir því að innanlandsflugið innan Svíþjóðar muni stórlega dragast saman á næstu árum og nánast leggjast af. Eins benda þeir á að lestarsamgöngur eru umhverfisvænni en flugsamgöngur.
Spurning er hvort að lestarsamgöngur frá til dæmis Leifsstöð, með viðkomi á gamla varnarliðssvæðinu, þar sem að háskólaþorpið Keilir er, svo í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ, Kópavog að miðbæ Reykjavíkur myndi ekki geta gagnast ansi mörgum. Allavega gæti það nýst þarna ferðalöngum til og frá Leifsstöð, háskólanemum, fólki á leið í og úr vinnu, og jafnvel stytt leigubílaröðina í miðbænum um helgar Svo framarlega sem lestin yrði í gangi allan sólarhringinn og stoppustöðvar í áðurnefndum bæjarfélögum. Hægt væri að byrja á þessari leið og taka síðar í gagnið lestarsamgöngur viðar um landið, t.d. til Akureyrar, Selfoss osfrv. Reyndar sé ég ekki fyrir mér lestarsamgöngur til Vestmannaeyjar.
Með þessu mætti allavega minnka umsvifin á Reykjavíkurflugvelli.
Nú mun einhver eflaust tala um sjúkraflugið, því sé nauðsynlegt að halda í flugvöllinn, ætla að taka það fram að ég er alls ekki á móti flugvellinum en er ekki sjúkraflugið að færast mikið yfir á þyrlurnar, sem lenda þá við LSH-Fossvogi?
Þykir mig rétt að skoða alla möguleika, kannski eru lestarsamgöngur lausnin, kannski alls ekki. En vert er samt að skoða og reikna út dæmið að, mínu áliti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2007 | 17:18
Stórt eða lítið, lítið eða stórt, höll eða kot.
Gönguhópurinn Leifur Lost gekk fram á þennan snotra og kósy sumarbústað er hópurinn gekk frá Stóru Skógum að Bifröst. En bústaðurinn er við Jafnaskarð. Takið eftir því, að þó svo að bústaðurinn sér ekki stór, þá er hann samt sem áður með forstofu.
Fólkið sem byggði þennan bústað hefur að sjálfsögðu gert sér grein fyrir því að þegar menn byggja sér hús þá er margs að gæta svo sem að húsið sé af réttri stærð.
Vert er að geta þess að á öðrum stað hér um slóðir, nánar tiltekið að Veiðilæk er verið að byggja sumarhús, eða réttara sagt sumarhöll, sem ku eiga að verða um 850 fermetrar að stærð og verður með ca 50 fermetra vínkjallara. Eigandi þess hallar hlýtur að telja að það sé af réttri stærð fyrir sig og sína.
Hvort húsið ætli sé í réttum stærðarflokki fyrir sín not? Hvort húsið ætli sé meira notað? Hvort vill maður eiga höll eða lítið kósý sumarhús?
Þetta eru margar spurningar sem hverjum og einum er frjálst að svara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.11.2007 | 00:38
Athyglisverður dómur
Hrd 1953 bls 170
Ég hef aldrei skilið af hverju menn leggja ástfóstur við bílnúmer eins og sumir gera.
Í þessum dómi hafði Ó keypt sér bíl árið 1926 af Dixie Flyer gerð, fékk hann bílnúmerið A 2. Alla tíð greiddi maðurinn öll lögboðin gjöld af bílnum, en hafði hinsvegar trassað að fara með bílinn í skoðun. En á 12 ára tímabíli fór hann einu sinni með bílinn i skoðun en það var sumarið 1941. Reyndar notaði hann bílinn litið. En í september mánuð árið 1948 gerði bifreiðaeftirlitsmaður bæjarins sér lítið fyrir og afmáir þessa bifreið úr bifreiðaskrám embættisins og deildi út númerinu að nýju. Svo Ó höfðaði mál gegn lögreglustjóra bæjarins og krafðist þess að fá númerið aftur. En þar sem að ekki þótti sannað að bifreiðin væri í lagi þá þótti rétt að sýkna lögreglustjórann að svo stöddu.
Ekki er ég nú viss um að þetta sé eins bifreið og um ræðir í dómnum, en þetta er BMW Dixie árgerð 1926.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.11.2007 | 17:54
Femínistar og norðurlandasamstarf.
Sjálfsagt telst ég sem femínisma. Allavega þá er ég hlynntur jafnrétti. Finnst ekkert sjálfsagðara en að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf.
En eins og stendur í 22.gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
IV. kafli. Bann við mismunun á grundvelli kynferðis.
22. gr. Almennt bann við mismunun.
Hvers kyns mismunun eftir kynferði, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil.
Íslendingar hafa í gegnum tíðina verið hrifin af norðurlandasamstarfi og ég er þar á meðal. Svo langt sem það nær. Þessa frétt var mér send af vísir.is, geri ég nú ráð fyrir því að femínistar á Íslandi muni styðja við baráttu stallsystra sínna í Sviþjóð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2007 | 22:15
Athyglisverður dómur
Undir þessu heiti mun ég annað slagið setja inn dóma sem mér þykir athyglisverðir á einn eða annan hátt.
Þennan dóm hér sem gengur undir nafninu flugeldar í leigubíl, finnst mér athyglisverður sökum atburðarásinnar í honum. Vonandi að svona uppákoma eigi ekki eftir að eiga sér stað aftur. Eins vona ég að viðkomandi kona hafi náð sér að meiðslunum.
Hrd. 1959, bls. 671.
...numið staðar við sælgætisbúð á horni Bræðraborgarstígs og Túngötu. ... Einn í þessum hópi, K. að nafni, var eigandi umræddrar sælgætisbúðar. Þarna var tekið og borið út í bifreið stefnda gosdrykkir, sælgæti og flugeldar. Að því búnu var ekið af stað aftur og numið staðar uppi á Ártúnsbrekku, þar sem flugeldunum var skotið. Bættust nú þrír farþegar í bifreið stefnda, og var ekið áleiðis vestur í bæ, Var numið staðar við fyrrgreinda sælgætisbúð til þess að ná þar í sígarettur. Búðareigandinn og annar úr hópi farþega, B. að nafni, fóru inn í búðina þeirra erinda. Er þeir komu aftur, höfðu þeir meðferðis tvo pappakassa með flugeldum í. Var lok á hvorum kassa og teygjuböndum bundið yfir þá, en kassarnir festir saman með teygju eða snæri, B. settist í framsæti bifreiðarinnar við hlið stefnanda, er sat á milli hans og bifreiðarstjórans. Hafði B. kassana með flugeldunum í á hnjám sér. Stefndi var nú beðinn að aka eitthvað inn fyrir bæ. Ók hann áleiðis inn á Suðurlandsbraut. Er komið var inn undir Múla, varð skyndilega vart við mikið neistaflug úr flugeldakössunum, og skipti það engum togum, að bifreiðin varð brátt alelda. Stefndi stöðvaði bifreiðina þegar í stað, svipti opinni vinstri framhurðinni og hraðaði sér út. Kveðst hann þegar hafa opnað farangursgeymslu bifreiðarinnar og tekið þar handslökkvitæki, er hann hafi sprautað úr á eldinn, en hann hafi þá verið svo magnaður orðinn, að það hafi engan árangur borið. Af farþegunum í bifreiðinni er það að segja, að þau þrjú, sem setið höfðu í aftursætinu, komust svo að segja strax út úr bifreiðinni lítið sem ekkert meidd, en höfðu orðið fyrir einhverju fatatjóni. B. kveðst hafa kastað sér út úr bifreiðinni, um leið og stefndi snaraðist út úr henni, og kveðst viss um, að hann hafi farið út um sömu dyr og stefndi. Kveðst hann ekki hafa orðið var við stefnanda og telur, að hún muni þá hafa verið fallin í gólfið og hann farið yfir hana. Er hann kom út úr bifreiðinni, hafi frakki hans logað, og hafi hann strax farið úr honum. Er hér var komið, kveðst hann hafa heyrt, að einhver kallaði til hans að forða sér frá bifreiðinni, því að sprenging mundi verða. Samtímis hafi honum orðið ljóst, að stefnandi var enn inni í bifreiðinni. Kveðst hann því hafa seilzt eftir henni inn í eldinn og dregið hana út um vinstri framdyrnar. Logaði kápa stefnanda þá, og var hún þegar færð úr henni.
Stefndi kveður farþegana hafa reykt í bifreiðinni, einnig B., sem hélt á flugeldakössunum. Kveðst stefndi fyrst hafa orðið eldsins var þannig, að neistaflug hafi dunið á honum úr kjöltu B.. Stefndi kveður farþegana hafa verið eitthvað lítils háttar undir áhrifum áfengis og kveðst halda, að þeir hafi haft meðferðis eitthvað lítils háttar af áfengi.
Bílstjórinn var sýknaður í þessu máli, enda ekki hægt að fallast á að tjónið mætti rekja til notkunar bifreiðarinnar.
Það sem hægt er að læra af þessum dómi er að reykingar og flugeldar fara ekki vel saman, hvað þá reykingar og flugeldar í bíl. Sem betur fer er líka búið að banna farþegum að reykja í leigubílum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2007 | 13:44
Smyril line nei Liberty of the Seas
Síðasta vor fór ég í útskriftarferð með Háskólanum á Bifröst. Við ákváðum að fara í siglingu. Vildum ekki taka neina áhættu því völdum við stærsta skemmtiferðaskipið í heiminum í dag, Liberty of the Seas. Þess má geta að enginn varð sjóveikur í ferðinni, enda haggaðist ekki skipið, annað en aumingja farþegarnir í Smyril Line máttu þola í núverandi ferð.
Ship Facts |
Maiden Voyage: May 19, 2007 Passenger Capacity: 3,634 double occupancy Godmother: Donnalea Madeley Gross Tonnage: 160,000 Length: 1,112' Max Beam: 184' Draft: 28' Cruising Speed: 21.6 knots |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2007 | 13:25
Húsið á sléttunni
Þegar hús eru byggð er margt að gæta. Til að mynda þarf að íhuga hvort að húsið sé af réttri stærð fyrir þeirri notkun sem húsið er hugsað til. En gönguhópurinn minn gekk fram á þetta "hús" við Hreðarvatn fyrr í haust, að sjálfsögðu sá Maddaman strax að húsið gæti hugsanlega hentað fyrir fund framsóknarmanna. Enda eru framsóknarmenn víst komnir í útrýmingarhættu.
Vegurinn sem liggur fram hjá "húsinu" er einnig í sannkölluðum sveitastíl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2007 | 20:53
Ekki í mínum bakgarði.
Í apríl voru gerð breyting á almennum hegningarlögunum nr. 19/1940 með lögun nr. 61/2007. En með þeim var vændi í raun gert löglegt, svo lengi sem að þriðji aðili hagnist ekki á vændinu. Síðan þá hafa heyrst háværar raddir um að taka upp svokallaða sænsku leið, sem gengur út á að vændiskaup séu saknæm á meðan að sá/sú sem selur sig er saklaus. Ef við orðum þetta öðruvísi, þá væri fíkniefnakaupandinn sekur, en fíkniefnasalinn saklaus.!!! Ekki að ég ætli að réttlæta vændi, því ég hef aldrei hitt hina svokölluðu "hamingjasömu vændiskonu", held meira að segja að hún sé ekki til. En eitt skulum við þó athuga, að þarna eru tveir eða fleiri fullorðnir einstaklingar sem eiga hlut að máli. En fullorðnir einstaklingar þurfa og eiga að taka ábyrgð á sínum gjörðum.
En það sem kemur mér samt mest á óvart við þessa umræðu er að börnin sem ég hef mun meiri áhyggjur af virðast gleymast. Engin virðist vera að ræða um þau. Bíddu, gætu sumir hugsa, það er refsivert að stunda vændi með börnum. Mikið rétt. En hvað með einstaklinga sem fara erlendis og níðast á börnum þar og koma svo heim aftur, þeir eru ekki dregnir fyrir Íslenska dómstóla, svo lengi sem brotið er erlendis virðist sem öllum sé sama. Bara að það sé ekki í mínum bakgarði? Svo tel ég ekki vera. Þetta eru að mínu mati meðal hættulegustu glæpamannanna sem lög verða að ná yfir. En vonandi stendur þetta þó til bóta, því eftifarandi kafla rakst ég á í frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingu á almennum hegningarlögunum. " Í 1. gr. frumvarpsins er í fyrsta lagi lögð til viðbót, sem verður 19. tölul. við 6. gr. almennra hegningarlaga, sem mælir fyrir um að það ákvæði taki einnig til brota sem falla undir samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi frá 15. nóvember 2000 og bókun við þann samning frá sama degi til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Með þessu er tryggt að íslensk lög fullnægi þeim kröfum um refsilögsögu sem mælt er fyrir um í 15. gr. Palermósamningsins og 4. gr. áðurnefndrar bókunar við þann samning." Allavega er þetta skref í rétta átt og vonandi muni íslenskir sem aðrir barnaníðingar ekki verða óhultir neinsstaðar í heiminum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2007 | 17:34
Í upphafi
Jæja tilraun tvö, var búinn að skrifa þessa færslu áðan en skrifaði óvart yfir hana og færsla númer tvö birtist. En það flokkast undir byrjunarörðugleika hins óvana bloggara ekki satt?
En það sem ég sagt vildi hafa, var að það mun væntanlega ekki líða á löngu þar til að ég muni sigra þennan blogg heim með mínum ótrúlegum skrifum eða þannig. En eitt skal þó vera á hreinu, ég hef ekki hugsað mér að skrifa um nein mjög persónuleg málefni, enda tel ég slík málefni ekki eiga heima á bloggsíðum yfirhöfuð.
En maðurinn sem hér ritar, fór í háskólanám eftir að hafa þroskast aðeins. Stunda ég nú nám við Háskólann á Bifröst eins og hann heitir í dag. Þar er ég í mastersnámi í lögfræði sem ég hyggst klára næsta haust ef allt gengur upp, en um helgar ek ég Taxa, eins og kemur fram í færslunni sem kom óvart í stað þessarar. Eins á ég tvö yndisleg börn sem búa í Svíaríki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2007 | 17:02
Miðbærinn
Eins og áður hefur komið fram þá ég ég leigubíl um helgar. Þess vegna fylgist ég aðeins með umræðunni um vöntun á leigubílum. Margir hafa talað um að það sé mikil vöntun á þeim um helgar. Ég skal alveg viðurkenna að það er óþolandi að þurfa að standa í einhverji biðröð eftir að fá þjónustu hverju nafni sem hún nefnist. En það furðulega er að aldrei heyrir maður fólk kvarta yfir því að þurfa að bíða í hálftíma eftir að geta keypt sér drykk á sneisafullum bar, eða að þurfa að bíða í röð í bönkunum eða stórmörkuðum, það sem meira er fólk beið í löngum röðum eftir að komast inn í leikfangaverslun sem var opnuð um daginn. Samt er til nóg af leikfangaverslunum sem selja vörur á sama verði.
En nóg um biðraðir, ég tel samt sem áður að leigubílstjórar upp til hópa bjóða upp á góða þjónustu á Íslandi. Bílarnir eru allavega snyrtilegir, ca 99% bílanna taka við greiðslukortum og allflestir eru með leiðsögutæki í bílunum (Garmin eða álika). En leigubílar í New York hafa einmitt farið í verkfall undanfarið til að mótmæla leiðsögutækjum og posum. Svo mikil er nú þjónustan þar í landi.
En auðvitað er það bara pólitisk spurning hvort að fjölga eigi leigubílaleyfum á höfuðborgarsvæðinu eða jafnvel bara gefa þau alveg frjáls. Persónulega er ég ávallt hrifnari af frjálsri samkeppni og tel því ekkert til fyrirstöðu að breyta þessu kerfi. Að sjálfsögðu munu leyfishafar mótmæla harðlega, en er ekki staðreyndin samt sú að öll höft eru til hins verra? Það er allavega mín skoðun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar